Fjórfalt fleiri ferðamenn nýttu ferðir Icelandair í júní

Stærsti farþegahópurinn hjá Icelandair í júní voru erlendir ferðamenn. MYND: BERLIN AIRPORT

Fjöldi farþega í millilandaflugi Icelandair rúmlega þrefaldaðist á milli maí og júní 2021. Þeir voru í heildina 72 þúsund í síðasta mánuði og þar af flugu 45 þúsund til Íslands eða fjórfalt fleiri en í maí. Inní þeirri tölu eru farþegar sem hefja ferðalagið í útlöndum, bæði erlendir ferðamenn og Íslendingar búsettir út í heimi.

Farþegar sem hófu ferðalagi á Íslandi voru samtals tólf þúsund og tengifarþegar hátt í fimmtán þúsund. Á súluritinu hér fyrir neðan má sjá samanburð við júní 2019 en þá gaf félagið upp nákvæmari tölur um fjölda farþega eftir hópum en nú er gert.

Sætanýting félagsins í millilandaflugi Icelandair var 53,2% í júní og segir í tilkynningu frá flugfélaginu að á ákveðnum flugleiðum séu breiðþotur notaðar til að mæta eftirspurn eftir fraktflugi. Það hefur neikvæð áhrif á sætanýtinguna.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi var rúmlega 22 þúsund sem er fjölgun um fjögur þúsund farþega miðað við maímánuð. Viðbótin nemur tíu þúsund farþegum í samanburði við júní í fyrra. Sætanýting í innanlandsflugi var um 73 prósent líkt og í fyrra.