Fleiri farþegar þrátt fyrir lokuð landamæri

Frá flugstöðinni í Portland, Oregon. Mynd: Pdx

Ennþá er ferðamönnum ekki hleypt inn fyrir bandarísk landamæri og framboð á millilandaflugi til og frá Bandaríkjunum er því ennþá mjög takmarkað.

Engu að síður fóru fleiri farþegar í gegnum vopnaleitina á bandarískum flugvöllum þann 1. júlí í ár en á sama degi árið 2019 eins og sjá má í tístinu hér að neðan frá talsmanni Bandarísku flugöryggisstofnunarinnar.

Eftirspurn eftir innanlandsflugi í Bandaríkjunum hefur verið mikil síðustu vikur og er sérstaklega mikil núna þegar þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna er á sunnudegi eins og tölurnar hér að neðan bera vott um. En þrátt fyrir að erlendir ferðamenn fái ekki að heimsækja Bandaríkin þá fá bólusettir íbúar landsins að fara út í heim án þess að þurfa í sóttkví við heimkomuna.