Flugrekstur vetrarins byggir á reynslunni sem fæst næstu tvo mánuði

MYND: ISAVIA

Það skiptir miklu máli fyrir þróunina á komandi vetri hvernig tekst til í flugrekstri og þjónustu við ferðamenn á Íslandi nú í júlí og ágúst. Þetta fullyrðir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, í tilkynningu.

„Við hjá Isavia vinnum mikið með flugfélögum við að tryggja aukið framboð af flugi yfir vetrartímann. Áhuginn á Íslandi er mikill og með hverju nýju félagi og hverjum nýjum áfangastað þá fjölgar þeim sem vilja sækja okkur heim og tækifærum fyrir íslensk viðskiptalíf til að sækja á nýja markaði fjölgar enn,“ bætir Guðmundur Daði við.

Hann segir að næstu dagar geti orðið mjög annasamir og afgreiðsla hæg í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á meðan gildandi sóttvarnarráðstöfunum heilbrigðisyfirvalda er fylgt gagnvart komufarþegum.

Á laugardaginn fóru 10.580 manns um Keflavíkurflugvöll sem er í fyrsta skipti síðan í upphafi heimsfaraldursins, í mars í fyrra, sem farþegahópurinn fer yfir tíu þúsund á einum degi.