Gerir ráð fyrir „einstefnu“ í Ameríkuflugi út sumarið

Í dag halda þrjú flugfélög uppi flugi milli Íslands og New York. Aðeins bólusettir íbúar Bandaríkjanna geta nýtt sér þessar ferðir. Og ekki er breytinga að vænta á því fyrr en í haust að mati forstjóra Delta flugfélagsins. Mynd: Hector Arguello / Unsplash

Þotur Delta flugfélagsins fljúga nú til Íslands daglega frá þremur bandarískum borgum og hafa umsvif félagsins á Keflavíkurflugvelli aldrei verið meiri.

Það sama verður ekki sagt um Evrópuflugið almennt því tekjur Delta af því drógust saman um 85 prósent á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama tímabil árið 2019.

Skýringin á þessu hruni liggur fyrst og fremst í þeirri staðreynd að ennþá er útlendingum bannað að heimsækja Bandaríkin. Aftur á móti hefur fjöldi Evrópuríkja, þar á meðal Ísland, opnað sín landamæri gagnvart bólusettum Bandaríkjamönnum.

Það ríkir í raun „einstefna“ í flugi milli Norður-Ameríku og Evrópu segir Ed Bastian, forstjóri Delta, í viðtali við Financial Times í dag í tengslum við uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung sem birt var í gær.

Bastian forstjóri gerir ráð fyrir að Evrópubúum verði í fyrsta lagi hleypt til Bandaríkjanna á nýjan leik nú í haust. Aftur á móti gæti orðið árs bið í að markaðurinn fyrir flug milli Asíu og Bandaríkjanna opnist að hans mati.

Stór hluti af umsvifa Icelandair snúa að farþegum á leið milli Norður-Ameríku og Evrópu. Það skiptir því gríðarlegu máli fyrir það félag að samgöngur milli heimsálfanna verði á ný með eðlilegri hætti en nú er.