Gistinóttum Íslendinga í Berlín fækkaði um 89 prósent

Bæði Icelandair og Play halda nú úti áætlunarflugi til Berlínar. Mynd: visitBerlin / Dagmar Schwelle

Íslenskum túristum í höfuðborg Þýskalands hefur fjölgað síðustu ár í takt við tíðari ferðir héðan til borgarinnar. Og þar lék Wow Air lykilhlutverk enda varð félagið það fyrsta til að halda úti flugi til Berlínar allt árið um kring.

Frá falli Wow Air hefur Icelandair hins vegar setið eitt af markaðnum en eins og gefur að skilja lágu ferðir félagsins til Berlínar niðri stærstan hluta síðasta árs. Og sú staða endurspeglast í fjölda íslenskra gistinátta í þýsku höfuðborginni í fyrra. Þær voru nefnilega rétt um fimmtán hundruð talsins sem er samdráttur upp á 89 prósent frá árinu 2019.

Það ár keyptu Íslendingar rúmlega þrettán þúsund gistinætur á hótelum í Berlín sem var reyndar minna en árið 2018 þegar þær voru fimmtán þúsund talsins. Skýringin á niðursveiflunni í hittifyrra er vafalítið að finna í falli Wow Air í lok mars 2019.