Helmings nýting á „slottum“ dugir í vetur

Boeing þota Delta kemur inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli. MYND: DELTA AIR LINES

Allt frá því að heimsfaraldurinn hófst þá hafa flugrekendur fengið undanþágu frá lágmarksnýtingu á lendingarleyfum. Almenna reglan kveður nefnilega á um að flugfélög noti svokölluð „slott“ í að lágmarki átta af hverjum tíu tilvikum.

Ef notkunin hefur verið minni þá hafa flugfélög misst viðkomandi leyfi. Á yfirstandandi sumarvertíð er gerð krafa um að lágmarki helmings nýtingu og nú hefur framkvæmdastjórn ESB ákveðið að sama regla gildi í vetur.

Í tilkynningu frá samtökum evrópskra flugvalla, ACI Europe, er þessari ákvörðun ESB fagnað en bent á að nýtingarhlutfallið hefði jafnvel mátt verða hærra. Og fyrir næsta sumar þá bynda forsvarsmenn flugvalla í Evrópu vonir við að flugfélög verði á ný að nýta „slottin“ sín í áttatíu prósent tilfella.