Icelandair samsteypan eykur framboð á sólarlandaflugi

Frá Alicante. Mynd: Cale Weaver / Unsplash

Systurfélögin Icelandair og ferðaskrifstofan Vita hafa nú í sumar nýtt breiðþotur til að fljúga Íslendingum í sólarlandaferðir til Tenerife og Alicante. Þar með fjölgar sætunum í hverri ferð um nærri helming frá því sem var eða upp í 262 sæti.

Mikil eftirspurn er ástæða þessara breytinga samkvæmt svörum frá Icelandair en þar á bæ hefur þó ekki verið tekin ákvörðun um hvort brottförum til sólarstaðanna tveggja verði fjölgað vegna aukinnar sölu.

Tenerife bættist nú í vor við leiðakerfi Icelandair en áður hafði flugfélagið aðeins flogið þangað fyrir ferðaskrifstofur, þar á meðal systurfélagið Vita. Núna selur Icelandair hins vegar sjálft sætin í flugið til og frá Tenerife en aftur á móti eru ferðirnar til Alicante á könnu Vita. Þotur Icelandair eru þó líka nýttar í þær.

Auk systurfélaganna tveggja þá bjóða Heimsferðir, Aventura og dótturfélög Ferðaskrifstofu Íslands upp á reglulegar ferðir til bæði Alicante og Tenerife. Og núna í sumar bættist svo Play við þann hóp.