Kalla eftir strangari reglum um Airbnb

Horft yfir á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Mynd: Martin Heiberg / Unsplash

Nú þegar hótelgeirinn er á hnjánum þá er tímabært að setja skýrari reglur um útleigu á íbúðahúsnæði í gegnum miðlara eins og Airbnb. Um leið mætti herða eftirlit með starfseminni. Þetta er mat forsvarsmanna Horesta, samtaka gisti- og veitingageirans í Danmörku.

Máli sínu til stuðnings vísa samtökin á tölur frá Airbnb sem sýna að umsvif bandaríska fyrirtækisins jukust um 52 prósent á heimsvísu á fyrsta fjórðungi ársins. Þess háttar vöxtur er fjarri þeirri stöðu sem danskir hóteleigendur eru í.

Í Danmörku mega fasteignaeigendur bjóða íbúðir í skammtímaleigu í allt að sjötíu daga á ári og það þykir Horesta allt of langur tími. Beina samtökin því þeim tilmælum til danskra ráðamanna að hámarkið verði fært niður í 35 daga og að skattleysismörk á leigutekjum verði felld niður.

Fyrir Covid-19 faraldurinn þá stóð útleiga í gegnum Airbnb og sambærileg fyrirtæki undir um fimmtungi af heildarumsvifum gistigeirans í Kaupmannahöfn.