Kostnaðarsamt að setja starfsemina í gang á ný

MYND: ICELANDAIR / SIGURJÓN RAGNAR

Tap Icelandair Group nam 6,9 milljörðum króna á öðrum fjórðungi ársins en umsvif félagsins jukust hratt á þessu tímabili. Félagið hóf flug á ný til fimmtán áfangastaða og fjöldi brottfara á viku jókst úr 28 í apríl í 160 í júní.

Þessi umbreyting kallaði á verulega fjárfestingu eins og fram kemur í tilkynningu sem félagið sendi frá sér fyrrr í kvöld.

„Talsverður kostnaður felst í því að hefja flug á ný og er því framlegð af fyrstu flugum yfirleitt minni en þegar flugáætlun hefur gengið í ákveðinn tíma. Sætanýting jókst jafnt og þétt eftir því sem leið á fjórðunginn þrátt fyrir mikla aukningu á tíðni fluga. Þá féll töluverður rekstrarkostnaður til vegna undirbúnings félagsins fyrir metnaðarfulla flugáætlun til að mæta aukinni eftirspurn á seinni hluta þessa árs. Meðal annars er um að ræða kostnað við að taka vélar aftur í rekstur eftir mánuði í geymslu, innleiðingu þriggja nýrra Boeing 737 MAX véla inn í flota félagsins, þjálfun starfsfólks og markaðsmál,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að lausafjárstaða félagsins hafi styrkst verulega á öðrum ársfjórðungI vegna mikillar aukningar í bókunum á flugi á seinni helmingi ársins. Hún nam 45,6 milljörðum króna í lok fjórðungsins en inní þeirri tölu er lánalínan sem Alþingi samþykkti að veita fyrirtækinu sl. haust. Upphæð hennar nemur 15,2 milljörðum kr. á gengi dagsins en Icelandair hefur ennþá ekki nýtt sér lánið.