Leggja ennþá engan virðisaukaskatt á farmiðana frá Leifsstöð

Nú eru hafnar á nýjan leik sætaferðir á vegum þriggja fyrirtækja milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarinnar. Og sem fyrr leggja tvö þeirra, Kynnisferðir og Gray Line, virðisaukaskatt ofan á farmiðaverðið á meðan Reykjavík Sightseeing gerir það ekki.

Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða, sem rekur Flugrútuna, vakti máls á þessu ósamræmi í febrúar í fyrra líkt og Vísir greindi frá. Í kjölfarið óskuðu forsvarsmenn Gray Line, sem rekur Airport Express, eftir umsögn Skattsins á því hvort sætaferðir frá Keflavíkurflugvelli væru undanþegnar virðisaukaskatti eða ekki.

Og Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, segir ekki hægt að skilja álit Skattsins nema á þann veg að aksturinn sé virðisaukaskattsskyldur.

„Við höfum kallað eftir upplýsingum um hvort eitthvað hafi breyst en engin svör hafa borist frá Skattinum þrátt fyrir ítrekun. Á meðan engar tilkynningar um breytta afstöðu berast frá Skattinum þá stendur úrskurðurinn frá því fyrir ári síðan,“ segir Þórir í svari til Túrista.

Hann segir Gray Line því innheimta og skila virðisaukaskatti af farmiðasölu vegna akstur til og frá Keflavíkurflugvelli og öllum öðrum leiðum þar sem fyrirtækið er með reglubundnar ferðir ár.

„Það er líka skýrt tekið fram í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, við setningu undanþáguákvæðis almenningssamgangna i virðisaukaskattslögum, að aðkoma hins opinbera með einum eða öðrum hætti marki sérstöðu þeirra fólksflutninga sem lagt var til að eftirleiðis yrðu undanþegnir virðisaukaskatti. Það er flestum ljóst að opinberir aðilar eiga enga aðkomu að skipulögðum ferðum einkaaðila sem eru í mikilli samkeppni á þessari leið milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur,“ bendir Þórir á.

Túristi hefur óskað eftir skýringu frá Reykjavik Sightseeing, sem rekur Airport Direct, á því að enginn virðisaukaskattur er innheimtur af akstri fyrirtækisins milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Engin svör hafa borist.