Leggja í hann til Barcelona og Orlando

Frá Barceloneta ströndinni í Barcelona. Mynd: Lucrezia Carnelos / Unsplash

Í lok síðasta vetrar bættu stjórnendur Icelandair við áætlunarflugi til bæði Barcelona og Orlando við sumaráætlun félagsins. Vanalega hefur Icelandair þó ekki haldið úti ferðum til síðarnefndu borgarinnar yfir sumarmánuðina.

Að þessu sinni er fyrsta brottför ársins til Flórída engu að síður á dagskrá á föstudaginn kemur en aðeins bólusettir Bandaríkjamenn geta nýtt sér ferðirnar. Evrópubúum er nefnilega ennþá ekki hleypt inn fyrir bandarísk landamæri.

Í dag eru fjörutíu sæti frátekin á almennu farrými í fyrstu ferðina til Orlando samkvæmt bókunarvél á heimasíðu Icelandair. Við þann hóp bætast svo þeir farþegar sem vilja ekki greiða aukalega fyrir val á sæti.

Í brottför Icelandair til Barcelona á laugardaginn eru í dag 45 sæti frátekin á almennu farrými og verður þetta fyrsta ferð flugfélagsins til spænsku borgarinnar í fjögur ár.

Upphaflega var reyndar gert ráð fyrir að hefja flug til Barcelona þann 12. júní en það gekk ekki eftir.

Aftur á móti hóf Play flug til Barcelona í síðustu viku og áætlun þess félags gerir ráð fyrir tveimur ferðum í viku. Icelandair lætur eina brottför í viku duga.