Nærri fimmtungur eignarhaldsins utan EES

Mynd: Icelandair / Sigurjón Ragnar

Hluthafar Icelandair Group samþykktu í gær tillögu um að auka hlutafé félagsins. Þar með varð bandaríski fjárfestingasjóðurinn Bain Capital stærsti hluthafinn því sjóðurinn hafði skuldbundið sig til að kaupa allt hið nýja hlutafé fyrir um 8,1 milljarð króna. Bain Capital eignast þar með 16,6 prósent hlut í Icelandair samsteypunni.

Fyrir átti bandaríski verðbréfasjóðurinn SFC Foresta Master Fund 1,41 prósent hlut í Icelandair en sú eign fer niður í 1,17 prósent með hlutafjáraukningu gærdagsins.

Á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Icelandair er líka breski fjárfestirinn John Shrimpton. Hann á 350 milljón hluti í Icelandair eða 1,04 prósent af útgefnu hlutafé í Icelandair.

Þessir þrír erlendu hluthafar eiga þá samtals 18,8 prósent hlut í Icelandair sem er langt frá þeim mörkum sem sett eru í reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Þær kveða nefnilega á um að aðilar utan svæðisins megi ekki fara með meirihluta í flugfélögum sem rekin eru inn EES landanna.

Í tengslum við fjárfestingu Bain Capital þá var fulltrúi Bain Capital, Matthew Evans, kosinn í stjórn. Hann tók sæti Úlfars Steindórssonar sem hafði ákveðið að stíga til hliðar yrði fallist á tillögurnar. Guðmundur Hafsteinsson er því nýr stjórnarformaður og Nina Jonsson verður varaformaður stjórnar.