Nýja þotan loks á leið til Boston

Stjórnendur SAS sáu fyrir Covid-19 faraldurinn færi í aukinni sókn í flugi milli Kaupmannahafnar og Boston. Þá var ætlunin að nýta splunkunýja Airbus A321LR á þessari flugleið en þetta eru óvenju langdrægar tveggja raða flugvélar. Þær sömu og forráðamenn Icelandair hafa sagst vera spenntir fyrir.

Áform SAS um aukna landvinninga í Boston voru þó sett á ís þegar ferðalög milli heimsálfa stöðvuðust í fyrra. Nú er hins vegar tímabært að dusta rykið af þessum áætlunum að mati stjórnenda SAS sem tilkynntu í gær að nú í september myndi nýja þotan fljúga til Boston frá Kaupmannahöfn þrisvar í viku.

Um leið ætlar SAS að setja Ameríkuflug sitt almennilega í gang á nýjan leik en það hefur legið niðri að mestu leyti síðustu misseri.

Það eru þó fleiri flugfélög en SAS sem hafa séð möguleika á auknum flugi frá Boston til Evrópu. JetBlue flugfélagið er til að mynda að gera klárt fyrir sína sókn inn á þann markað og því stefnir í að baráttan um alþjóðlega farþega í Boston eigi eftir að harna.

Sú borg hefur lengi verið eitt af höfuðvígjum Icelandair og áður hefur komið fram að stjórnendur Play horfa til borgarinnar þegar Ameríkuflug félagsins hefst næsta vor.