Ólíkar reglur hjá íslensku flugfélögunum um grímunotkun

Farþegar Delta á Keflavíkurflugvelli. Í flugi til og frá Bandaríkjunum verða allir sem náð hafa tveggja ára aldri að hafa grímur. Innan Evrópu liggja mörkin oft við sex ára aldur en hjá Play sleppa þau við grímur sem eru 16 ára og yngri. Mynd: Delta Air Lines

Öll börn sem eru eldri en 10 ára þurfa að vera með grímur í flugi hjá Icelandair ef ferðast er innan Evrópu. Mörkin liggja við tveggja ára aldur ef flogið er vestur um haf.

Hjá Play eru farþegar sem fæddir eru árið 2005 eða síðar undanþegnir grímuskyldu. Það eru þá allir sextán ára og yngri.

Evrópsku flugfélögin á Keflavíkurflugvelli miða oftast við að eingöngu fimm ára og yngri sleppi við grímur. Það á til dæmis við um Easyjet, Lufthansa, SAS og Wizz. Ef flogið er með Transavia liggja mörkin við 12 ára aldur en sem fyrr þá þurfa aðeins þeir sem náð hafa sautján ára aldri að nota grímur hjá Play.

Það félag veitir farþegum einnig undanþágu frá grímunotkun ef þeir sem geta sýnt fram á fyrri Covid-19 sýkingu eins og segir á heimasíðu félagsins. Samkvæmt lauslegri athugun Túrista þá er þarf þessi hópur farþega hins vegar þurfa að setja upp grímur ef þeir ferðast með öðrum flugfélögum til og frá Íslandi.

Almennt gera flugfélög þó undanþágu gagnvart farþegum sem geta ekki notað grímur af heilsufarástæðum eða vegna fötlunar. Sá hópur verður þó að hafa meðferðis vottorð sem sýnt er við innritun og jafnvel aftur þegar gengið er um borð í flugvélina.