Opna loks kanadísk landamæri

Nú í vetur verður Icelandair eitt um flugið héðan til Toronto. Næsta sumar gætu þrjú önnur flugfélög tekið upp áætlunarflug á þessari leið. Mynd: Conor Samuel / Unsplash

Allt frá því að Covid-19 heimsfaraldurinn braust út í mars í fyrra þá hefur ferðamönnum ekki verið leyft að heimsækja Kanada. En núna þegar þrír af hverjum fjórum íbúum hafa fengið sína fyrri bólusetningu þá ætla stjórnvöld hins vegar að opna landið að nýju.

Til að byrja með þó aðeins fyrir nágrönnunum sínum því þann 9. ágúst fá bólusettir íbúar Bandaríkjanna að stíga fæti inn fyrir landamærin. Mánuði síðar, þann 7. september, verður Kanada svo opnað fyrir öllum þeim sem hafa verið bólusettir og geta sýnt fram á neikvæðar niðurstöður úr nýju Covid-19 prófi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem kanadísk stjórnvöld birtu í gær.

Þar með ætti Icelandair loks að geta hafið flug til Kanada á ný en fyrir heimsfaraldur voru umsvif félagsins verulega þar í landi. Sumaráætlun Icelandair gerði þó aðeins ráð fyrir ferðum til Toronto og Vancouver en áður flugu þotur félagsins líka til Montreal og Edmonton. Ferðirnar til Halifax duttu upp fyrir sumarið 2019.

Samkvæmt heimasíðu Icelandair þá er fyrsta ferð félagsins til Toronto á dagskrá þann 4. ágúst. En líkt og fyrr segir þá fá Evrópubúar í fyrsta lagi að heimsækja Kanada þann 7. september. Þar með má reikna með breytingum á núverandi áætlun Icelandair.

Líkt og Túristi fjallaði um nýverið þá gæti svo farið að fjögur flugfélög bjóði upp á áætlunarflug milli Íslands og Kanada næsta sumar.