Útlendingar með tvær af hverjum þremur gistinóttum

Útlendingar keyptu um 109 þúsund gistinætur á íslenskum hótelum í júní samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hér er eitt af herbergjum Icelandair hótelsins við Mývatn. Mynd: Icelandair hótelin

Miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar, sem byggja á fyrstu skilum fyrir júnímánuð, þá má ætla að gistinætur á hótelum í júní hafi verið um 158 þúsund talsins. Þar af voru útlendingar skráðir fyrir um 109 þúsund og Íslendingar 49 þúsund.

Borið saman við í júní í fyrra þá má ætla að orðið hafi um það bil 75 prósent aukning í fjölda gistinátta í júní á milli ára. Þar af má ætla að gistinætur útlendinga hafi um það bil sjöfaldast en gistinóttum Íslendinga hafi fækkað um rúmlega þriðjung.

Í júní 2019 voru gistinæturnar 420.300 og þá stóðu útlendingar undir níu af hverjum tíu nóttum.

Í frétt á vef Hagstofunnar segir að miklar breytingar eigi sér nú stað á framboði á hótelrýmum og það auki mjög óvissu í bráðabirgðamati á fjölda gistinátta.

„Því er rétt að taka þessum áætluðu tölum um fjölda gistinátta á hótelum í júní með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur verða birtar í lok júní,“ segir í frétt Hagstofunnar.