17 aukaferðir til Tenerife

Framboð á flugsætum hjá Icelandair til Tenerife mun aukast verulega nú í haust og fram yfir áramót. Mynd: AENA

Icelandair hóf að fljúga á eigin vegum til Tenerife nú í vor en áður flaug flugfélagið aðeins til spænsku eyjunnar fyrir íslenskar ferðaskrifstofur. Þar á meðal Vita sem heyrir undir Icelandair Group.

Nú í sumar hefur Icelandair svo haft á boðstólum tvær ferðir í viku til Tenerife en í haust fjölgar ferðunum í þrjár í viku og í kringum jól og áramót verða aukaferðirnar ennþá fleiri.

Samtals er um að ræða sautján viðbótarferðir samkvæmt talningu Túrista en líkt og áður hefur komið fram hér á síðunni þá hefur Icelandair meðal annars nýtt breiðþotur í ferðir sínar til Tenerife og Alicante í sumar.

Ferðirnar til Alicante eru reyndar ekki hluti af leiðakerfi Icelandair því þar er um að ræða flug fyrir Vita. Og nú í ágúst hefur brottförunum þangað verið fjölgað úr tveimur í þrjár.