90 prósent þeirra sem hafa greinst eru með íslenska kennitölu

Auknar kröfur verða nú um sýnatöku farþega með tengsl við Ísland. Mynd: Isavia

Bólusettir farþegar með tengsl við Ísland þurfa frá og með 16. ágúst að fara í sýnatöku innan tveggja sólarhringa frá komu til landsins. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í gær.

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að um 90 prósent þeirra einstaklinga sem greinst hafa með Covid-19 frá 1. júlí hafi íslenska kennitölu.

Auk íslenska ríkisborgara þá ná hinar nýju reglur einnig til allra þeirra útlendinga sem eru búsettir hér á landi eða eru með atvinnuleyfi. Umsækjendur um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi munu einnig þurfa í sýnatöku við komu til landsins.

Umræddir farþegar munu þó ekki þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir.

Nú er unnið að nánari útfærslu á framkvæmd þessara nýju reglna en áður hefur komið fram að um fimmtungur farþega á Keflavíkurflugvelli eru Íslendingar eða útlendingar búsettir hér á landi.