Bandaríkin aftur á rauðan lista ESB

Bandaríkjamenn hafa verið langfjölmennastir í hópi erlendra farþega á Keflavíkurflugvelli í sumar. MYND: ISAVIA

Það var nú í sumarbyrjun sem Evrópusambandið heimilaði bandarískum ferðamönnum á ný að heimsækja aðildarríki sambandsins. Ráðamenn í Washington borg fóru hins vegar ekki sömu leið og bann við ferðum Evrópubúa til Bandaríkjanna hefur nú verið gildi frá því í mars í fyrra.

Á fundi í Brussel seinnipartinn í dag var svo ákveðið að taka Bandaríkin af lista ESB yfir örugg ríki líkt og við var búist. Ástæðan er útbreiðsla Covid-19 vestanhafs.

Með þessari ákvörðun er formlega bundinn endi á það frelsi sem Bandaríkjamenn hafa haft til að ferðast til aðildarríkja ESB og Schengen samstarfsins síðustu mánuði.

Hvert aðildarríki getur þó, samkvæmt frétt Wall Street Journal, ákveðið hvort ráðleggingunum frá Brussel verður fylgt eða ekki. Þar með má Ísland áfram halda sínum landamærum opnum gagnvart bólusettum Bandaríkjamönnum líkt og verið hefur síðan í vor.