Bíða ennþá lengur með Boston

MYND: SAS

Lengi vel var Icelandair eina norræna flugfélagið sem bauð upp á áætlunarferðir til Boston. Síðan mætti WOW air á svæðið og svo SAS og Norwegian. Primera Air, undir stjórn Andra Más Ingólfssonar, ætlaði svo líka að hasla sér völl í Boston.

WOW og Primera Air heyra nú sögunni til og Norwegian einbeitir sér að flugi innan Evrópu. Stjórnendur SAS hafa því séð tækifæri í aukinni sókn í flugi milli Kaupmannahafnar og Boston með því að nýta splunkunýja Airbus A321LR. Þetta eru óvenju langdrægar tveggja raða flugvélar. Þær sömu og forráðamenn Icelandair hafa sagst vera spenntir fyrir.

Vegna heimsfaraldursins voru áform SAS þó sett á ís en núna á miðvikudaginn var ætlunin að fara fyrstu ferðina yfir hafið á nýju þotunni. Í dag, tveimur sólarhringum fyrir brottför, var þó skyndilega hætt við allt saman.

Í viðtali við Checkin í Danmörku segir blaðafulltrúi SAS að skýringin liggi í dræmri eftirspurn sem rekja megi til óvissunnar sem aukinnar útbreiðslu Covid-19 vestanhafs.

Í því samhengi má benda á að þotur Icelandair fljúga daglega til Boston og allt að þrisvar á dag til Kaupmannahafnar.