Bíða með áfengi fram á næsta ár

Farþegar American Airlines fá ekki að drekka áfengi í flugi félagsins fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót. Mynd: American Airlines

Dólgsháttur meðal flugfarþega er vaxandi vandamál í flugi vestanhafs og til að draga úr líkunum á þess háttar hegðun þá hætti American Airlines að bjóða upp á áfengi um borð fyrr í sumar.

Nú hafa stjórnendur flugfélagsins ákveðið að framlengja bann við neyslu áfengra drykkja í flugi félagsins fram yfir áramót. Þessi ákvörðun byggir á áframhaldandi grímuskyldu í flugi frá bandarískum flugvöllum samkvæmt frétt The Points Guy.

Fyrr í vikunni gaf Flugöryggisstofnun Bandaríkjanna það nefnilega út að núgildandi regla um grímunotkun yrði framlengd til 18. janúar á næsta ári. Tíðari ólæti meðal flugfarþega hafa verið rakin til óánægju með að þurfa að vera með grímur í háloftunum.