Bólusettum verði hleypt til Bandaríkjanna

orlando skilti 860
Það gæti styst í að bólusettir Íslendingar komist til Flórída á nýjan leik. Mynd: Visit Orlando

Evrópskir ráðamenn hafa síðustu mánuði lagt pressu á Joe Biden Bandaríkjaforseta að opna landið á ný fyrir Evrópubúum. Forsvarsfólk ferða- og fluggeirans vestanhafs hefur einnig kallað eftir því að ferðabannið, sem sett var í upphafi heimsfaraldursins í fyrra, verði afturkallað.

Vonir um að breytingar væru í nánd dofnuðu hins vegar verulega í síðustu viku þegar talsmaður Hvíta hússins sagði enga stefnubreytingu vera í pípunum.

Nú herma hins vegar heimildir Reuters fréttaveitunnar að unnið sé að áætlun um opnun landamæranna. Og sú mun gera ráð fyrir að eingöngu bólusettu fólki verði hleypt inn.

Ekki liggur þó fyrir hvenær þessar breytingar verða formlega kynntar eða ganga í gildi.