Fallast ekki á rök fyrir gjaldtöku við Hjörleifshöfða

Hjörleifshöfði. Mynd: Patrick Reijnders / Creative Commons

Áform forsvarsmanna Viking Park Iceland um að hefja gjaldtöku á akstur ferðaþjónustufyrirtækja að landi Hjörleifshöfða fá neikvæða umsögn hjá sérfræðingum Umhverfisstofnunnar. Þetta kemur fram í bréfi sem stofnunin sendi Viking Park Iceland fyrr í sumar og Túristi hefur afrit að.

Í bréfinu er meðal annars bent á að engin lagaheimild sé fyrir hendi sem heimili landeigendum að taka gjald fyrir stýringu á umferð inn á vegi á landi sínu. Af þeim sökum hefur Umhverfisstofnun upplýst forsætisráðuneytið um áformin við Hjörleifshöfða þar sem þau geti falið í sér hindrun að þjóðlendu.

Sérfræðingar Umhverfisstofnunnar fallast heldur ekki á rök Viking Park Iceland um að gjaldtakan takmarki utanvegaakstur á svæðinu. Segir í áliti stofnunarinnar að erfitt sé að sjá hvernig gjaldtaka eigi að hafa þessi áhrif.

Að lokum bendir Umhverfisstofnun forsvarsmönnum Viking Park á að þeim, eins og öðrum landeigendum, sé frjálst að bjóða upp á valkvæða þjónustu á landi sínu. Er gjaldtaka að salernisaðstöðu nefnd sem dæmi.

Ekki náðist samkomulag milli forsætisráðuneytisins og landeiganda um kaupverð á jörðinni sem Hjörleifshöfði er innan. Í lok síðasta árs var svo tilkynnt að þýska fyrirtækið STEAG Beteilungsgesellschaft hefði keypt jörðina. Samkvæmt frétt Vísis var söluverðið 489 milljónir króna. Viking Park Iceland leigir jörðina af þýska fyrirtækinu.