Flóknara fyrir okkur en frændþjóðirnar að ferðast

Þeir sem fljúga héðan til Kaupamannahafnar þurfa ekki að hafa með sér neikvæðar niðurstöður úr PCR-prófi. Aftur á móti er gerð krafa um slíkt þegar flogið er í hina áttina. MYND: ISAVIA

Allir þeir sem ferðast til Íslands þurfa að sýna fram á neikvæða niðurstöðu í PCR-prófi eða hraðprófi. Íslenskir ríkisborgarar og útlendingar búsettir á Íslandi verða auk þess að fara í aðra skimun fyrir Covid-19 við komuna til landsins.

Á hinum Norðurlöndunum eru kröfur ekki svona strangar. Bólusettir farþegar þurfa ekki að fara í neina skimun, hvorki fyrir heimferð eða við heimkomu samkvæmt núgildandi reglum.

Á það bæði við um erlenda ferðamenn sem og íbúa Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs og Finnlands sem hafa verið á ferðalagi í öðru EES-landi. Aftur á móti verður fólk að sýna fram á að það hafi verið bólusett fyrir Covid-19 eða náð sér eftir veikindi sem rekja má til veirunnar. Í Svíþjóð eru þó tilmæli um að fólk fari í próf við heimkomu.

Vegna aukinnar kröfu hér á landi þá þurfa Íslendingar að gera ráð fyrir töluvert hærri útgjöldum í tengslum við utanlandsferðina þessa dagana en frændur okkar.

Algengt verð fyrir PCR-próf í Evrópu er nefnilega um 100 evrur eða 15 þúsund krónur. Fjögurra manna fjölskylda greiðir því um 60 þúsund krónur fyrir prófið sem þarf að hafa til að komast heim til Íslands. Hraðpróf kosta um helmingi minna.

Til viðbótar við sýnatökugjaldið þá má reikna með ákveðinni fyrirhöfn að koma sér og sínum í sýnatöku. Svo ekki sé minnst á óþægindin.