Hækka ferðamannaspána örlítið

Seðlabankinn gerir ráð fyrir að fjölgun ferðamanna á landinu á fjórða ársfjórðungi verði minni en áður var talið. Mynd: Íslandsstofa

Fjöldi erlendra ferðamanna hér á landi í sumar var meiri en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í spá sinni í maí. Sérfræðingar bankans telja þó að fjölgun smita og staða Íslands á rauðum lista sóttvarnarstofnunnar Evrópu dragi úr fjölguninni á fjórða ársfjórðungi.

Engu að síður hækkar bankinn fyrri spá sína um fjölda túrista í ár úr 660 þúsundum í 680 þúsund. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta hefti Peningamála sem kom út í dag.

Fyrstu sjö mánuði ársins höfðu nærri 185 þúsund ferðamenn flogið frá landinu en gera má ráð fyrir að sú tala fara töluvert yfir þrjú hundruð þúsund þegar ágúst verður gerður upp.