Hefja Ameríkuflug á fyrri hluta næsta árs

Svona verða Dreamliner þotur Norse Atlantic. Tölvuteikning: Norse Atlantic

Eftirspurn eftir flugi milli Evópu og Norður-Ameríku mun glæðast á ný í lok fyrsta fjórðungs næsta árs að mati forsvarsmanna nýja norska lágfargjaldaflugfélagsins Norse Atlantic. Þeir ætla því að vera tilbúnir í að hefja áætlunarflug yfir Norður-Atlantshafið á fyrri helmingi næsta árs.

Félagið hefur nú þegar tryggt sér fimmtán Boeing Dreamliner þotur sem áður tilheyrðu Norwegian. En einn af stofnendum Norse Atlantic er einmitt Bjørn Kjos sem lengi leiddi Norwegian.

Samkvæmt frétt Dagens Nærlingsliv mun Norse Atlantic byrja á því að fljúga til New York, Los Angeles og Flórídaskagans og þá frá Ósló, London og París.

Það er því ljóst að ef þessi áform Norse Atlantic ganga eftir þá fá Icelandair og Play nýja evrópskan keppinaut í flugi yfir Norður-Atlantshafið. En Play stefnir á að hefja flug til Ameríku næsta vor.