Hvað kostar að borða í flugferðinni?

Hjá Lufthansa eru veitingar um borð ennþá hluti af farmiðaverðinu. MYND: LUFTHANSA

Ef ferðinni er ekki heitið til Grænlands eða Færeyja þá tekur sinn tíma að fljúga héðan til útlanda. Það er því ekki ólíklegt að stór hluti farþeganna fái sér matarbita um borð og geti þá um leið tekið niður grímurnar eitt augnablik.

Það heyrir þó til undantekninga að farþegum á almennu farrými er boðið upp á veitingar. Í langflestum tilfellum þarf að borga fyrir allt en ennþá halda þó sum flugfélög í þá hefð að bjóða upp á vatn og jafnvel kaffi.

Play rukkar meira en Icelandair

Farþegar á leið til og frá Íslandi borga mest fyrir samlokurnar hjá Play eða 1.340 krónur á gengi dagsins. Matseðill flugfélagsins er nefnilega í evrum. Næst dýrast er smurða brauðið hjá Icelandair þar sem það kostar 1.250 krónur. Þar á bæ hefur verðið hækkað um þriðjung frá sumarinu 2019.

Íslensku flugfélögin tvö rukka svo langmest fyrir ölið. Bæði flugfélög eru með Egils Gull á boðstólum og hjá Icelandair þarf að borga 1.050 kr. fyrir dósina en hún kostar 1.190 kr. (8 evrur) hjá Play.