Icelandair skorar á Play í skíðaferðum

Horft yfir Salzburg. Mynd: Anthony Hill/Unsplash

Flug til austurrísku borgarinnar Salzburg var fastur liður í vetrardagskrá Wow Air. Flogið var á laugardögum og vanalega var fyrsta ferð nokkrum dögum fyrir jól og sú síðasta í mars. Um borð voru íslenskir skíðakappar á leið upp í Alpana.

Stuttu eftir að Play hóf starfsemi nú í vor þá setti félagið í sölu fimm laugardagsferðir til Salzburg. Sú fyrsta verður farin þann 22. janúar og sú síðasta 19. febrúar.

Núna hefur Icelandair einnig hafið sölu á áætlunarflugi til Salzburg og stefnt er að fyrstu ferð laugardaginn 15. janúar og flogið verður vikulega fram til 5. mars. Samtals verða ferðirnar átta hjá Icelandair en fimm hjá Play.

Ódýrustu sætin hjá Icelandair og Play kosta rétt tæpar 18 þúsund krónur, aðra leið.