Keflavíkurflugvöllur ekki sá eini sem lenti í niðurskurði

Fram á haustið munu Boeing þotur Delta fljúga hingað daglega frá þremur bandarískum borgum. Mynd: Isavia

Í vor setti bandaríska flugfélagið Delta Air Lines í sölu áætlunarflug til Íslands frá New York, bæði fyrir sumarið og líka komandi vetur.

Vetrarferðirnar voru hins vegar teknar út af dagskránni um miðjan síðasta mánuð líkt og Túristi greindi þá frá.

Nú er áætlun Delta fyrir veturinn að taka á sig mynd og ljóst að Keflavíkurflugvöllur er ekki sá eini í Evrópu sem fer á mis við þotur Delta í vetur.

Félagið hefur nefnilega einnig hætt við áætlunarflug frá New York til Nice, Feneyja og Edinborgar.

Einnig verða áætlanaferðir milli Boston og Dublin settir á ís og Evrópuflug frá Atlanta, helstu starfsstöð Delta, verður sömuleiðis mun umsvifaminna í vetur en vonir stóðu til.