Leigja fleiri Dreamliner þotur

Ein af Dreamliner þotunum sem Norwegian var áður með í sínum flota. MYND: NORWEGIAN

Nú í sumar hafa nokkur ný flugfélög hafið rekstur og á næstu mánuðum munu fleiri fara í loftið. Eitt þeirra er hið norska Norse Atlantic sem stefnir á áætlunarflug milli Evrópu og Norður-Ameríku. Einn forsvarsmanna félagsins er Bjørn Kjos, stofnandi og áður forstjóri Norwegian.

Norse Atlantic tryggði sér í vor níu Boeing Dreamliner þotur sem áður voru í flota Norwegian og í gær tilkynnti félagið um leigu á sex þannig þotum í viðbót. Allar koma þær frá flugvélaleigunni BOC Aviation og voru áður í notkun hjá Norwegian.

Þess má geta að BOC Aviation á eina af Boeing MAX þotunum sem Icelandair er með á leigu.

Stefnt er að því að Norse Atlantic hefji áætlunarflug í fyrsta lagi í lok þessa árs.