Litakóðunarkerfið ekki í endurskoðun

Nýjasta kort Evrópsku sóttvarnarstofnunarinnar. Mynd: ECDC

Nú er Ísland orðið rautt á korti Evrópsku sóttvarnarstofnunarinnar (ECDC) og þar með komið í flokk Evrópuríkja þar sem útbreiðsla Covid-19 smita er mest.

Í litakóðunarkerfi ECDC er útbreiðslan eini mælikvarðinn og ekki tekið tillit til hlutfalls bólusettra, fjölda smitprófa eða smitrakningar í hverju landi fyrir sig.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, lýsti því einmitt yfir í fréttum Rúv í síðustu viku að hún vonaðist til að fljótlega yrði horft til fleiri þátta en bara fjölda smita á hverja hundrað þúsund íbúa.

Í kjölfar þeirrar yfirlýsingar ráðherrans leitaði Túristi upplýsinga hjá ECDC um hvort þar væru unnið að breyttu litakóðunarkerfi. Í svari stofnunarinnar kom fram að það væru aðildarlöndin sjálf sem ákveði mælikvarðana en ekki stofnun.

Og samkvæmt svari frá ESB, við fyrirspurn Túrista, er bent á að gerðar hafi verið breytingar á upplýsingagjöf ECDC í júní. Nú sé til að mynda einnig birt kort þar sem sést hversu margir eru prófaðir í hverju landi fyrir sig. Aftur á móti eru ekki á borðinu breytingar á litakóðunarkerfinu sjálfu.

Túristi hefur ítrekað reynt að fá svör frá Atvinnuvegaráðuneytinu um hvort íslensk stjórnvöld hafi í gegnum aðild sín að ECDC reynt að fá fram breytingar á litakóðunarkerfinu. Engin svör berast hins vegar frá ráðuneytinu.