Óttast að ferðabannið gildi fram í lok nóvember

Stór hluti af umsvifunum á Heathrow flugvelli snýr að flugferðum til Norður-Ameríku. Sá hluti er þó ennþá mjög takmarkaður. MYND: LONDON HEATHROW

Stjórnendur breskra flugfélaga eru farnir að búa sig undir að bandarísk landamæri verði áfram lokuð breskum og þar með evrópskum ferðamönnum. Þetta kemur fram í frétt The Telegraph í dag.

Í frétt blaðsins segir að áætlanir flugfélaga séu farnar að taka mið af því að ferðabannið gildi fram í lok nóvember eða þar til að þakkargjörðarhátíðin er afstaðin.

Það flækir líka málin að í Bretlandi, sem og annars staðar í Evrópu, hefur fjöldi fólks fengið bóluefni frá Astra-Zeneca. Sá lyfjaframleiðandi hefur hins vegar ekki óskað eftir samþykki bandaríska lyfjaeftirlitsins á bóluefninu. Það er því ekki á lista þarlendra stjórnvalda yfir viðurkennd Covid-19 bóluefni.

Framboð á flugi frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna hefur aukist hratt í sumar þrátt fyrir að eingöngu bólusettir Bandaríkjamenn geti nýtt sér ferðirnar með góðu móti. Flugáætlun Icelandair gerir þannig ráð fyrir reglulegu flugi til níu bandarískra borg og hingað fljúga daglega þotur bandarísku flugfélaganna Delta og United.