Staðfesta Íslandsflug frá bæði Kaupmannahöfn og Ósló

Það verður engin breyting á ferðum stærsta flugfélags Norðurlanda frá Keflavíkurflugvelli.

MYND: SAS

Í takt við aukna eftirspurn frá bæði viðskiptaferðalöngum og almennum farþegum þá ætlar SAS flugfélagið að fjölga flugferðum í vetur. Í heildina gerir þetta stærsta flugfélag Norðurlanda ráð fyrir að halda úti meira en 160 flugleiðum fram á næsta vor.

Í mörgum tilfellum flýgur félagið til sömu borgarinnar frá öllum þremur starfsstöðvum sínum, þ.e. Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Ósló.

Áætlunarflugið til Íslands er dæmi um þess háttar því þotur SAS hafa flogið hingað um árabil frá höfuðborgum Noregs og Danmerkur. Á þessu verður framhald í vetur því flug til Íslands, frá báðum þessum borgum, er hluti af vetraráætluninni sem SAS kynnti í morgun.

Sú áætlun gerir jafnframt ráð fyrir að SAS taki upp þráðinn í flugi til borga eins og Amsterdam, Dublin, Flórens, Kraká og Prag. Einnig verður tíðni ferða til Kanaríeyja og áfangastaða við Miðjarðarhafið aukin.

Ennþá komast evrópskir ferðamenn ekki til Bandaríkjanna en SAS ætlar engu að síður að halda úti áætlunarflugi í vetur til Boston, Chicago, New York, Washington, Los Angeles, Miami og San Francisco.