Vilja stöðva ónauðsynleg ferðalög frá Bandaríkjunum

Ákvörðun ESB gæti haft þó nokkur áhrif á flugumferð um Keflavíkurflugvöll.

Umsvifin í flugi milli Evrópu og Bandaríkjanna hafa verið að aukast umtalsvert síðustu mánuði. Þróunin gæti þó orðið önnur eftir fund ráðamanna ESB í dag. Mynd: Schiphol flugvöllur

Innan Evrópusambandsins er mikill vilji til að leggjast gegn öllum ferðalögum að nauðsynjalausu til aðildarríkjanna frá Bandaríkjunum. Ástæðan er aukin útbreiðsla Covid-19 vestanhafs samkvæmt fréttum Wall Street Journal og New York Times.

Þar segir að ráðamenn ESB hafi síðastliðinn mánuð haft uppi áform um takmarka ferðalög frá Bandaríkjunum og endanlegrar ákvörðunar um málið sé að vænta í dag.

Í því samhengi má rifja upp að í lok síðasta vetrar ákváðu íslensk stjórnvöld, fyrst Evrópuríkja, að opna íslensk landamæri fyrir öllum bólusettum ferðamönnum. Líka þeim sem komu frá löndum utan Schengen svæðisins eða Evrópu. Síðan þá hafa Bandaríkjamenn verið lang fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi.

Til viðbótar við það þá hefur fjöldi tengifarþega á Keflavíkurflugvelli verið að aukast hratt en það eru þeir sem millilenda hér á landi á ferð sinni milli Evrópu og Norður-Ameríku. Samtals voru tengifarþegarnir 51 þúsund í Leifsstöð í júlí og voru þeir næstum allir bókaðir í flug með Icelandair.

Gera má ráð fyrir að ef ESB ákveður að banna ferðir Bandaríkjamanna til Evrópu þá er mun það takmarka umsvifin í tengifluginu um Keflavíkurflugvöll umtalsvert. Jafnvel þó Ísland verði áfram opið fyrir Bandaríkjamönnum þó aðildarríki ESB loki sínum ytri landamærum á ný.