5 flugvellir detta út af vetraráætluninni

Glasgow er ein þeirra borga sem dettur út af vetraráætlun Icelandair. Mynd: Phil Reid / Unsplash

Stjórnendur Icelandair gerðu ráð fyrir að framboð á áætlunarflugi í vetur yrði um 70 til 80 prósent af því sem var fyrir heimsfaraldur. Vegna stöðu heimsfaraldursins hefur dregið úr væntingunum og áætlunin verður smærri í sniðum samkvæmt tilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær. Þannig verður gert hlé á öllu flugi til Helsinki, Glasgow, Gatwick flugvallar í London, Minneapolis og Portland í vetur.

Framboð á þriðja fjórðungi ársins verður því um 65 prósent af því sem var á sama tíma árið 2019. Í janúar og mars á næsta ári ætti hlutfallið að vera komið upp í um þrjá fjórðu.

Takturinn er því upp á við því líkt og Túristi greindi nýverið frá þá gerir flugáætlun Icelandair í september ráð fyrir að félagið verði á um sextíu prósent afköstum miðað við það sem var.

Í svari til Túrista segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að gert sé ráð fyrir að fljúga meirihlutann af september áætluninni. Breytingar yrðu einungis smávægilegar bætir hún við.

Það hefur einkennt síðustu mánuði að flugfarþegar, bæði hér heima og í útlöndum, bóka farmiða með mun styttri fyrirvara en var fyrir heimsfaraldur. Af þessum sökum hafa stjórnendur flugfélaga víða um heim sagt að erfitt sé að ráða í framhaldið.

Spurð hvort bókunarfyrirvarinn sé að lengjast þá segir Ásdís að hann sé ennþá stuttur og þar hafi Covid-19 mest áhrif. Til viðbótar þá bendir Ásdís á að fólk bóki að jafnaði ferðir á haustin og veturnar með minni aðdraganda en sumarferðir og það hefur líka sín áhrif.