Bandaríkjamenn fjölmennastir en vægi þeirra þó minna en fyrr í sumar

Það voru 152 þúsund erlendir farþegar sem flugu frá Keflavíkurflugvelli í ágúst en sú talning er notuð til að meta fjölda ferðamanna hér á landi. Líkt og síðustu mánuði voru Bandaríkjamenn langfjölmennastir eða nærri 57 þúsund. Vægi þeirra var því um 38 prósent en var hátt í helmingur í júní og júlí.

Skýringin á þessari breytingu liggur ekki í færri bandarískum ferðamönnum heldur þeirri staðreynd að nú í ágúst komu fleiri frá Evrópu. Sérstaklega frá Þýskalandi eins og sjá má á súluritinu.

Líkt og í júlí þá voru Ísraelar óvenju margir á Íslandi í ágúst enda flugu tvö þarlend flugfélög til Keflavíkurflugvallar í júlí og ágúst.