Bólusetning með AstraZeneca ætti ekki að koma í veg fyrir ferð til Bandaríkjanna

newyork loft Troy Jarrell
Það eru vafalítið einhverjir farnir að huga að ferðalagi vestur um haf í vetur. Mynd: Troy Jarrell / Unsplash

Frá og með byrjun nóvember verður bólusettum ferðamönnum heimilt að heimsækja Bandaríkin. Evrópubúum hefur ekki verið hleypt yfir bandarísk landamæri síðan í mars í fyrra þegar heimsfaraldurinn var að hefjast.

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvaða dag þessi breyting gengur í gildi og eins leikur vafi á því hvaða kröfur bandarísk yfirvöld munu gera til bólusetningarvottorða ferðamanna.

Innan Schengen svæðisins er reglan til að mynda sú að eingöngu ferðamenn með bólusefni sem fengið hefur markaðsleyfi í Evrópu sleppa við sóttkví. Ef Bandaríkjamenn notast við sömu reglu þá vandast málin fyrir þann hóp sem fékk bóluefni AstraZeneca.

Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur nefnilega aðeins gefið grænt ljós á bóluefni Moderna, Pfizer og Johnson&Johnson. Forsvarsmenn lyfjaframleiðandans AstraZeneca hafa aftur á móti ekki sóst eftir samþykki á sínu efni vestanhafs.

Stór hluti Íslendinga og annarra Evrópubúa er hins vegar bólusettur með AstraZeneca. Það verður þó ekki vandamál að sögn Anthony Fauci, sóttvarnalæknis Bandaríkjanna. Í viðtali við Times í Bretlandi segir hann að bólusetning með AstraZeneca ætti að verða viðurkennd sem fullnægjandi vörn fyrir ferðamenn áður en landamærin verða opnuð í nóvember.

—–

30 daga áskrift á 300 krónur
Stór hluti af greinum Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Þú færð fullan aðgang í 30 daga fyrir aðeins 300 kr. með því að nota afsláttarkóðann „300“ þegar þú pantar áskrift hér. Að þeim tíma loknum er greitt fullt gjald (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja áskriftinni upp.