Bólusettir ferðamenn munu ekki þurfa PCR-próf

Það styttist í að bólusettir ferðamenn geti ferðast til Bretlands án þess að fara í Covid próf fyrir ferðalag. Heimamenn ættu líka að sleppa við próf eftir heimkomu.

Þó daglega séu um eitt þúsund manns lagðir inn á spítala í Bretlandi vegna Covid-19 sýkingar þá ætla stjórnvöld þar í landi að létta verulega á öllum sóttvarnaraðgerðum. Bæði innanlands og eins við landamærin. Öll áform um að innleiða almenna notkun á kórónaveirupössum verða sett á ís og litakerfið við landamærin verður að mestu fellt niður. Þetta herma heimildir The Telegraph.

Í frétt breska blaðsins segir að í framverði verði erlend ríki aðeins flokkuð í tvo hópa. Annars vegar lönd sem heimilt er að heimsækja og þau sem ekki má ferðast til. Núverandi krafa um að allir þeir sem ferðast til Bretland fari í PCR-próf verður sömuleiðis felld niður.

Þeir sem ekki hafa verið bólusettir að fullu verða þó að gangast undir þess háttar próf og líka þeir sem koma frá ríkjum sem bresk yfirvöld leggjast gegn ferðalögum til. Núverandi listi yfir svokölluð rauð ríki verður þó styttur verulega í tengslum við breytinguna..

Gert er ráð fyrir að Boris Johnsson, forsætisráðherra Bretlands, kynni afléttingu aðgerða nú í vikunni.

Samkvæmt þeim reglum sem gilda við bresk landamæri í dag þá verða allir þeir sem fljúga til Bretlands að framvísa nýlegri neikvæðri niðurstöðu úr Covid-19 prófi. Íbúar landsins verða auk þess að taka PCR-próf eftir heimkomu. Þetta eru sambærilegar reglur og gilda við íslensk landamæri. Víðast hvar í Evrópu fá þeir bólusettu, auk barna og unglinga, að ferðast yfir landamæri án þess að taka Covid-19 próf.

Nú stefnir í að Bretar ætli líka þá leið og í frétt The Telegraph er bent á að með fyrrnefndum breytingum þá lækki kostnaðurinn við utanlandsferðir töluvert því PCR-próf í Bretlandi kosta á bilinu 50 til 200 pund. Það jafngildir 9 til 36 þúsund krónum.

– 30 daga áskrift á 300 krónurþessi frétt sem þú varst að lesa er öllum opin. Stór hluti af greinum Túrista er þó aðeins fyrir áskrifendur og nú geturðu lesið allt hér á síðunni í 30 daga fyrir aðeins 300 kr. Að þeim tíma loknum er greitt fullt gjald eða 2.650 kr. á mánuði. Notaðu afsláttarkóðann „300“ þegar þú pantar áskrift hér. Það er alltaf hægt að segja upp áskriftinni fyrir þann tíma.