Hafa tryggt sér níu þotur

Play hefur gert samning á fjórum þotum til viðbótar.

Þrjár Airbus A320neo flugvélar og ein Airbus A321NX munu bætast við flota Play frá næsta hausti og fram til vorsins 2023. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu frá Play.

Þoturnar verða leigðar af flugvélaleigunni Gecas og segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, að val á flugvélunum sé til marks um að félagið taki ákvarðanir með umhverfissjónarmið í huga.

Play hefur áður birt markmið um að losun gróðurhúsaloftegunda á hvern farþega verði þónokkuð undir því sem nemur losuninni hjá Icelandair. Nýjar og eyðslugrennri flugvélar eru forsenda fyrir að það markmið náist en ekki síður að sætanýtingin sé mjög góð og fraktflutningar verði í lágmarki.

Í flota Play eru í dag þrjár þotur og markmiðið er að bæta þremur við fyrir næstu sumarvertíð. Áður hefur verið greint frá leigu á tveimur flugvélum og samningar um þá þriðju eru langt á veg komnir.

—–

30 daga áskrift á 300 krónur
Stór hluti af greinum Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Þú færð fullan aðgang í 30 daga fyrir aðeins 300 kr. með því að nota afsláttarkóðann „300“ þegar þú pantar áskrift hér. Að þeim tíma loknum er greitt fullt gjald (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja áskriftinni upp.