Eina landið innan EES sem veitir bólusettum ekki undanþágu

Það er orðið einfaldara að ferðast innan Evrópu frá því sem var í sumarbyrjun.

Þeir sem ferðast innan Schengen- og EES-svæðisins í dag þurfa ekki að fara í Covid-próf í tengslum við ferðalagið svo lengi sem þeir eru bólusettir. Nema ef ferðinni er heitið til Íslands. MYND: GOLLI / STJÓRNARRÁÐIÐ

Allir þeir sem ferðast til Íslands verða að sýna fram á neikvæða niðurstöðu úr Covid-19 prófi við komuna. Í dag gerir ekkert annað ríki innan EES- eða Scengensvæðisins kröfu um slík vottorð frá fullbólusettum íbúum annarra aðildarríkja. Þetta sýnir samanburður Túrista sem byggir á upplýsingum af vefsvæðum erlendra stjórnvalda og upplýsingasíðu ESB.

Reglur landanna eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða óbólusetta eða bólusetta ferðamenn en eins og staðan er í dag sleppa þeir sem tilheyra seinni hópnum við bæði sóttkví og Covid-próf geti þeir framvísað bólusetningarvottorði, t.d. kórónuveirupassa ESB, við komuna.

Spurður út í sérstöðu Íslands þó segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, að hann viti það ekki fyrir víst hvort ekkert annað land innan Schengen krefjist neikvæðs prófs fyrir Covid-19.

„Þessar kröfur hafa verið breytilegar síðustu vikur og mánuði en það sem er víst er að kröfur á landamærum eru mjög mismunandi milli landa. Við byggjum okkar aðgerðir á landamærunum á þeirri reynslu sem við höfum fengið undanfarna mánuði með víðtækri skimun, smitrakningu og raðgreiningu. Þannig höfum við sýnt fram á að bólusettir einstaklingar sem hingað koma geta borið með sér veiruna og sett af stað útbreidda sýkingu innanlands. Þannig tel ég rétt að krefja áfram farþega sem hingað koma um neikvætt PCR/hraðpróf til að lágmarka flutning veirunnar hingað til lands. Fá önnur lönd hafa skoðað þetta eins vel og við. Einkum vegna þess að fá lönd raðgreina eins mikið og við gerum,“ segir Þórólfur.

Líkt og sjá má á töflunni hér fyrir neðan er víða ætlast til þess að fólk forskrái sig fyrir ferðalag og sú regla gildir einnig hér á landi. Til viðbótar verða svo þeir sem eru með tengsl við Ísland að fara í aðra sýnatöku ekki síðar en tveimur dögum eftir komuna til landsins. Bólusettir íbúar annarra ríkja Schengensvæðisins þurfa ekki í þess háttar próf.

Á Bretlandi, sem er ekki hluti af Schengen, er reyndar gerð krafa um að þeir sem ferðast til landsins taki Covid-próf í síðasta lagi tveimur sólarhringum eftir komuna og framvísi líka prófi að heiman landamærin,

Uppfært: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar var sagt að aðeins þyrfti að taka próf í Bretlandi eftir komuna. Það er ekki rétt.