Eins og í ágúst fyrir áratug síðan

Það voru rúmlega þrefalt fleiri sem nýttu sér ferðir Icelandair í ágúst samanborið við sama tíma í fyrra. Farþegar í millilandaflugi voru 241 þúsund að þessu sinni en rétt 67 þúsund á sama tíma í fyrra.

Í farþegum talið voru umsvifin í millilandafluginu í ágúst nærri jafn mikil og í ágúst 2011. Þá flutti Icelandair 249 þúsund farþega eða átta þúsund fleiri en núna. Sumarið 2011 var einmitt það fyrsta í sögu Icelandair þar sem áfangastaðirnir voru yfir þrjátíu talsins.

Til samanburðar þá flugu þotur Icelandair til 32 erlendra flugvalla í nýliðnum ágúst samkvæmt talningu Túrista.