Engin tilmæli varðandi utanlandsferðir bólusettra Íslendinga

Finnsk og norsk stjórnvöld biðja íbúa landanna að ferðast ekki út fyrir Schengen svæðið. Hér á landi er þetta ekki eins skýrt.

Óbólusettir íbúar Íslands eru ennþá beðnir um að ferðast ekki út í heim. Mynd: Isavia

Íbúum Íslands er ráðið frá ferðalögum til áhættusvæða án bólusetningar samkvæmt því sem segir á Covid.is, vef sem embætti landlæknis og almannavarnir halda úti. Þar segir jafnframt að öll lönd að undanskildu Grænlandi séu skilgreind sem áhættusvæði.

Þetta áhættumat hefur ekki verið uppfært síðan í febrúar sl. og aðspurður segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, að þau tilmæli standi enn að hvetja óbólusetta til að ferðast ekki til útlanda. Aftur á móti segir sóttvarnalæknir að engin sérstök tilmæli séu til þeirra sem hafa verið bólusettir.

Hafa slakað á ferðaviðvörunum

Lengi vel var Finnum ráðlagt að halda sig heima og reyndar segir á vef Stjórnarráðs Íslands að finnsk stjórnvöld ráði fólki frá ferðalögum til útlanda. Sú regla er ekki lengur í gildi því á vef finnska stjórnarráðsins er þeim tilmælum beint til íbúa landsins að ferðast ekki að nauðsynjalausu til landa utan Schengensvæðisins. Það sama gildir í Noregi samkvæmt reglum sem gefnar voru út þar í landi í síðustu viku.

Dönsk stjórnvöld gefa hins vegar út tilmæli eftir löndum og er Dönum til að mynda ráðið frá ferðalögum til Íslands vegna þeirra reglna sem gilda við íslensku landamærin.

Eina landið sem fer fram á próf frá bólusettum

Íbúar á Schengensvæðinu geta í dag ferðast milli aðildarríkja án þess að fara í Covid-próf svo lengi sem viðkomandi er bólusettur. Ísland er þó undantekning frá þessari reglu líkt og Túristi fjallaði um í fyrradag. Við íslensku landamærin verða allir að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr nýlegu Covid-prófi, líka þeir bólusettu. Til viðbótar eiga Íslendingar og aðrir sem hér búa eða starfa að fara í annað próf innan tveggja sólarhringa frá heimkomu.

Bretar eru með samskonar reglur og gilda hér á landi en þar er umræða um tilslakanir eins og BBC greindi frá í morgun.

—–

30 daga áskrift á 300 krónur.
Stór hluti af greinum Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Þú færð fullan aðgang í 30 daga fyrir aðeins 300 kr. með því að nota afsláttarkóðann „300“ þegar þú pantar áskrift hér. Að þeim tíma loknum er greitt fullt gjald (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja áskriftinni upp.