FlyOver Iceland til Las Vegas

Úr sýningunni FlyOver Iceland. MYND: FLYOVER ICELAND

Sýningar á FlyOver Iceland takmarkast ekki lengu við Fiskislóð í Reykjavík því frá og með deginum í dag geta íbúar og ferðamenn í Las Vegas í Bandaríkjunum líka flogið yfir Ísland. Það er fyrirtækið FlyOver Attractions sem stendur að opnun sýningarinnar í spilaborginni í tengslum við frumsýningu á FlyOver, The Real Wild West.

Sú sýning er ný af nálinni og þar er boðið uppá sýndarflug yfir Kaliforníu, Nevada, Arizona og Utah.

„Við hjá FlyOver erum afskaplega ánægð með nýju sýninguna í Nevada. Það var engu til sparað við upptökurnar og gerð hússins, staðsetningin á Las Vegas Boulevard gæti ekki verið betri. Við erum stolt af því að eiga lítill hlut í að auka hróður Íslands á jafn stórum ferðamannastað og þessum. Við erum sannfærð um að þetta mun kveikja löngun hjá mörgum að sækja okkur heim,“ segir Helga María Albertsdóttir, framkvæmdastjóri FlyOver Iceland, í tilkynningu.

Þar er jafnframt haft eftir Sigríði Dögg Guðmundsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, að Bandaríkin hafi verið mikilvægasti markaður íslenskrar ferðaþjónustu undanfarin ár.

„Bandaríkjamenn voru líka fyrstir til að taka við sér og fara að ferðast til Íslands þegar Covid-takmörkunum fór að létta. Það er því frábært að þessi glæsilega Íslandssýning sé komin til Las Vegas þar sem fólk fær tækifæri til að sjá hvað Ísland er spennandi áfangastaður,“ segir Sigríður Dögg.

The Real Wild West verður tekin til sýningar hjá FlyOver hér á Íslandi á næstu mánuðum.