Hefja flug milli Kanada og Skotlands

Mynd: Westjet

Þó Icelandair geri nú hlé á ferðum sínum til Glasgow í Skotlandi þá hefur borgin lengi verið mikilvægur áfangastaður i starfseminni. Sama má segja um Toronto í Kanada.

Nú sjá stjórnendur kanadíska lágfargjaldaflugfélasins Westjet færi beinu flugi frá þessari fjölmennustu borg Kanada til bæði Glasgow og Edinborgar. Ætlunin er að fljúga fjórum sinnum í viku til þeirrar fyrrnefndu og þrisvar í viku til Edinborgar frá og með maí á næsta ári.

Þessar ferðir bætast við flug Westjet til Glasgow frá Halifax í Kanada. Sú borg var lengi hluti af leiðakerfi Icelandair en félagið lagði niður ferðirnar þangað sumarið 2019. Sú ákvörðun var skrifuð á krísuna sem félagið lenti í vegna kyrrsetningar Boeing MAX þotanna.

Líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá hefur easyJet fækkað verulega ferðum sínum milli Íslands og Edinborgar. Gera má ráð fyrir að bæði stjórnendur Icelandair og Play horfi til þess en eins og sést á dæmi Westjet þá eru tækifæri í að fljúga til beggja þessarar skosku borga þó stutt sé á milli þeirra.