Hefja sölu á þriðja áfangastaðnum og sá er líka á Spáni

Frá La Barceloneta hverfinu í Barcelona. Þangað ætlar Play að fljúga næsta sumar.

Nú í sumar hafa þotur Play flogið reglulega til sjö borga en ennþá bíður félagið með að setja í sölu farmiða til meirihluta þessara staða frá og með næsta vori. Á þetta benti Túristi í vikunni en þá var eingöngu hægt að bóka far með félaginu til Alicante og Tenerife frá lokum mars á næsta ári.

Núna hefur félagið bætt Barcelona við og er reiknað með að fyrsta ferðin þangað verði farin þann 22. apríl. Þar með eru þrír spænskir staðir komnir í sölu hjá Play fyrir næstu sumarvertíð og þar með er framboðið upptalið.

Þeir Íslendingar sem búsettir eru í Kaupmannahöfn, London, Berlín og París og eru ákveðnir í að koma heim næsta sumar geta nefnilega ekki ennþá borið saman fargjöldin hjá Play við það sem keppinautarnir bjóða. Það sama á við um þær ferðaskrifstofur sem nú eru að skipuleggja dagskrána fyrir Íslandsferðir næsta sumars.

Icelandair og aðrir keppinautar Play í flugi frá þessum borgum til Íslands eru hins vegar með farmiða í sölu allt fram á haustið 2022.

Play er þó fyrst til að hefja sölu á farmiðum frá Keflavíkurflugvelli til Barcelona á næsta ári. Hvorki Icelandair né Vueling, sem hafa flogið þangað í sumar, hafa sett áætlunarflug ársins 2022, milli Íslands og höfuðborgar Katalóníu, í sölu.