Hræódýrt til Manchester og Birmingham í haust

Old Trafford í Manchester. Mynd: Samuel Regan Asante / Unsplash

EasyJet og Icelandair hafa hingað verið ein um flug milli Íslands og Manchester en nú í morgun bættist breska lággjaldaflugfélagið Jet2 í hópinn. Félagið stefnir á að fljúga hingað tvær ferðir í viku í september og fram í nóvember.

Af fargjöldunum að dæma þá fer þessi útgerð ekki vel af stað því miðarnir kosta í nærri öllum tilvikum 29 pund aðra leiðina. Það jafngildir um 5.100 krónum. Farið báðar leiðir er því rétt 10 þúsund krónur en borga þarf aukalega fyrir farangur.

Það er ekki nóg með að hægt sé að fljúga fyrir sáralítið með Jet2 til Manchester nú í haust. Félagið er nefnilega líka með á dagskrá flug til Keflavíkurflugvallar frá Birmingham í október og nóvember. Fargjöldin á þeirri leið eru líka í kringum fimm þúsund krónur þó stundum þurfi að borga meira fyrir heimferðina.

Sem fyrr segir þá fljúga líka easyJet og Icelandair til Manchester. Hjá því fyrrnefnda eru fargjöldin ólík eftir dögum en eru þó alla vega tvöfalt hærri en hjá Jet2. Icelandair rukkar svo töluvert meira því ódýrasti miðinn, aðra leið, kostar 20 þúsund krónur þar á bæ.