Jákvæðar horfur að mati stjórnenda Play

Farþegatekjurnar námu tæpri milljón á hverja ferð í júní. Play greiddi 210 milljónir í þóknanir til verðbréfafyrirtækja í tengslum við útboð.

Þriðja þotan bættist í flota Play í byrjun ágúst. Mynd: Play

Fyrsta uppgjör Play eftir að félagið hóf flugrekstur var birt í gær. Niðurstaðan er tap á fyrri helmingi ársins upp á 1,8 milljón dollara. Það jafngildir 223 milljónum króna miðað við gengið í lok tímabilsins. Tekjur félagsins voru skiljanlega litlar fyrstu sex mánuði ársins því áætlunarflug Play hófst ekki fyrr en í síðustu viku júní.

Samtals náði félagið að fara tvær ferðir til London og eina til Tenerife á þessari viku og farþegatekjurnar voru tæplega milljón krónur á hvern fluglegg eða samtals 5,4 milljónir króna.

Í tilkynningu frá Play segir að sjóðsstaðan sé sterkari en gert var ráð fyrir og eftirspurn eftir flugi vaxandi og horfurnar jákvæðar.

Undirbúningur fyrir áætlunarflug félagsins til Norður-Ameríku á næsta ári gengur jafnframt vel og búið er að tryggja leigu á sex þotum í viðbót við þær þrjár sem eru í flotanum í dag. Viðræður um leigu á tíundu Airbus A321 þotunni eru líka langt komnar.

Play aflaði sér samtals 82 milljón dollara í hlutafé á fyrri helmingi ársins í tveimur útboðum. Upphæðin nemur um tíu milljörðum króna og samtals fengu Arion banki og Arctica Finance, sem höfðu umsjón með útboðunum, greiddar um 210 milljónir króna fyrir sína vinnu samkvæmt því sem fram kemur í uppgjörinu.

Í dag starfar 131 starfsmaður hjá Play og gera stjórnendur félagsins ráð fyrir 150 til 200 starfsmönnum í viðbót til að vinna að uppbyggingunni sem er framundan. Að jafnaði voru starfsgildin á fyrri helmingi ársins 39 talsins.