Kanada opnar á ný

Eina flugið sem í boði héðan til Kanada er flug Icelandair til Toronto. Mynd: Conor Samuel / Unsplash

Frá og með deginum í dag eru bólusettir ferðamenn velkomnir til Kanada en landamæri landsins hafa verið lokuð öðrum en íbúum landsins allt frá því að heimsfaraldurinn hófst í mars í fyrra. Flugsamgöngur milli Íslands og Kanada lágu af þeim sökum niðri allt fram í ágúst sl. þegar Icelandair tók upp þráðinn í flugi sínu til Toronto, fjölmennustu borgar landsins.

Og að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, þá varð vart við mikinn áhuga á fluginu um leið og tilkynnt var, fyrr í sumar, að kanadísk landamæri yrðu opnuð á ný.

„Bókunarhlutfallið er mjög hátt á fyrstu brottfarir sem gefur okkur ástæðu til að vera bjartsýn á framhaldið,“ bætir Guðni við.

Fyrir heimsfaraldur þá voru flugsamgöngur milli Íslands og Kanada mjög tíðar. Á tímabili flugu þotur Icelandair til fimm borga þar í landi, WOW air til tveggja og svo bættust við ferðir á vegum Air Canada til Íslands á sumrin frá bæði Toronto og Montreal.