Kippur í bókunum á ferðum út í heim

„Það er ljóst í okkar huga að Íslendingar eru staðráðnir í að halda áfram að lifa lífinu og ferðast eins og áður, þrátt fyrir tilraunir yfirvalda að letja til ferðalaga," segir Jóhann Pétur Guðjónsson, framkvæmdastjóri GB-ferða. Þar á bæ og víðar hefur salan aukist eftir nýjustu breytingar á sóttvarnarreglum.

Eftirspurn eftir ferðum út í heim hefur aukist og margir sem horfa til ferða á spænskar sólarstrendur í haust og vetur. MYND: Ferðamálaráð Spánar

Undir lok júlí sl. var sú regla sett að allir þeir sem ætluðu til Íslands urðu að framvísa nýju og neikvæðu Covid-19 prófi fyrir flugferðina. Flugfélögin áttu þá að neita fólki um far sem ekki var með þess háttar próf. Þar með áttu Íslendingar, sem höfðu nýlega sýkst af Covid-19, á hættu á að komast ekki heim þar niðurstöður úr Covid prófum eru jákvæðar í töluverðan tíma eftir sýkingu.

Reglunni var þó breytt nú í lok ágúst á þann veg að nú er það ekki lengur flugfélaganna að hafa eftirlit með Covid-19 prófum farþeganna. Allir þurfa þó að framvísa neikvæðum niðurstöðum við heimkomu. Og þessi breyting hafði jákvæð áhrif á eftirspurn Íslendinga eftir ferðalögum út í heim.

„Við fundum fyrir kipp í sölu þegar við þessar nýju fréttir. Það er ljóst í okkar huga að Íslendingar eru staðráðnir í að halda áfram að lifa lífinu og ferðast eins og áður, þrátt fyrir tilraunir yfirvalda að letja til ferðalaga,“ segir Jóhann Pétur Guðjónsson, framkvæmdastjóri GB-ferða.

Hann bætir því við að það gleymist í umræðunni að aldrei hafi verið lagaheimild fyrir reglugerð samgönguráðherra á sínum tíma. „Ráðherra viðurkenndi þá staðreynd 12. ágúst en það tók engu að síður nokkrar vikur fyrir lögfræðinga samgöngu- og heilbrigðisráðuneytanna að leiðrétta þetta,“ útskýrir Jóhann Pétur.

Bæta við ferðum til Alicante

Hjá ferðaskrifstofunni Vita kom líka kippur í bókanir og sérstaklega á ferðum til Tenerife og Alicante að sögn Þráins Vigfússonar, framkvæmdastjóra.

„Við ákváðum í framhaldi af því að bæta í flugin til Alicante og fljúga allt árið. Við vorum búin að fá mikið af fyrirspurnum um vetrarflug til Alicante, sérstaklega frá stórfjölskyldum fyrir jól og áramót og svo golfurum sem vilja komast þangað allan veturinn. Veðrið á þessu svæði í desember og janúar er yfirleitt eins og bestu sumardagar á Reykjavíkursvæðinu,“ bætir Þráinn við.

Lítið um afbókanir

Það er ekki bara vísbendingar um auknar bókanir hjá ferðaskrifstofum síðustu daga því eftirspurn eftir áætlunarflugi hefur einnig glæðst.

„Salan hefur verið að aukast jafn og þétt síðustu vikur og það hefur verið lítið um afbókanir vegna COVID-19 skilmála, svo það er alveg greinilegt að fólk er að láta drauminn um að ferðast rætast. Það er þó erfitt að segja til um það nákvæmlega hvort salan hafi aukist vegna þess að reglunum var breytt varðandi neikvæðu prófin en við teljum þó mjög líklegt að það sé að hafa góð áhrif,“ segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play.

Líkt og Túristi hefur nýverið fjallað um þá eru ekki lengur gerðar kröfur á hinum Norðurlöndunum um að fólk framvísi neikvæðu prófi við landamæri. Þar með eru ferðalög ennþá flóknari og dýrari fyrir Íslendinga en frændþjóðirnar.