Nýr sölustjóri Play

Tatiana Shirokova kemur til Play frá Icelandair. MYND: PLAY

Tatiana Shirokova hefur verið ráðin forstöðumaður sölusviðs Play og mun hún bera ábyrgð á sölu- og dreifingarmálum félagsins. Hún kemur til Play frá Icelandair þar sem hún hefur starfað síðastliðin fjögur ár að sölumálum. Þar áður var hún forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá flugleitarvél Dohop.

„Ég tel að Play sé að koma inn á markaðinn á einstaklega góðum tíma og er stolt af því að fá að taka þátt í að leiða sölu- og dreifingarmál félagsins og byggja upp félagið,“ skrifar Tatiana í tilkynningu.

Þar er haft eftir Georgi Haraldssyni, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs flugfélagsins, að hann sé gríðarlega ánægður að fá Tatiana í liðið.

„Hún þekkir vel hefðbundna dreifingu flugfargjalda og stendur fremst meðal jafningja þegar kemur að stafrænni dreifingu. Markmið okkar er að viðskiptavinir sjái alltaf Play þar sem þeir leita að hagkvæmustu og bestu flugtengingunni, og þá skiptir öllu að vera sýnileg á þeim síðum sem fólk vill nota. Besta verðið mun svo tryggja að Play birtist efst á þessum síðum.“